Gaman að fá þig með! Þetta fyrsta tölublað af vefritinu Skólastarf á hraða tækninnar er hugsað sem hluti af námskeiðinu Gervigreind í kennslu, tækifæri og áskoranir. Hér færðu alls konar nytsamlegt efni, hugmyndir og innblástur beint í pósthólfið. Við skoðum hvernig tæknin og þá sérstaklega gervigreindin getur auðgað kennslu og nám á skapandi og hagnýtan hátt. Þetta er okkar vettvangur til að halda sambandi og deila því sem við lærum saman.
S. Fjalar og Hjörvar Ingi
Hvers vegna Substack?
Substack er öflugt fréttabréfakerfi og vettvangur til miðlunar efnis sem á undanförnum árum hefur vaxið mjög að vinsældum. Við Hjörvar hugsuðum með okkur að það gæti verið skemmtileg nýbreytni fólgin í því að miðla fræðslu með því að stofna fréttabréf á Substack. Þó kerfið sem slíkt sé ekkert sérstaklega hugsað til kennslu þá er einfalt að vinna þar efni sem getur samanstaðið af texta, myndum og myndskeiðum.
Það sem vakir kannski helst fyrir okkur er að geta boðið upp á staðbundin námskeið og síðan haldið fræðslunni áfram eftir að námskeiðinu á staðnum lýkur. Þetta má auðvitað gera á margvíslegan hátt, s.s. með því að nýta námsstjórnunarkerfi, en okkar reynsla er sú að fæstir heimsækja námskeið sem er sett upp á slíkum vettvangi eftir að eiginlegri kennslu er lokið. Þetta vefrit er okkar tilraun til að bæta úr því.
S.Fjalar og Hjörvar Ingi
ChatGPT - ein gervigreind, mörg verkfæri
Við tölum oft um gervigreind í eintölu, en í raun er um að ræða fjölmörg mismunandi líkön sem við getum valið úr. OpenAI kynnti ChatGPT seint á árinu 2022, en síðan þá hafa ýmis önnur fyrirtæki komið fram með sínar eigin lausnir – þar á meðal Google, X, Meta og Anthropic. Hvert þessara líkana hefur svo sínar eigin útgáfur, einskonar undirlíkön ef þannig má að orði komast. Til að nýta gervigreind á sem skilvirkastan hátt er mikilvægt að þekkja styrkleika og veikleika hvers líkans og velja það verkfæri sem best hentar hverju verkefni.
ChatGPT inniheldur t.a.m. 7 ólík módel þegar þetta er skrifað. Og þau eru öll með sína styrkleika sem henta ólíkum aðstæðum. Hér er einföld skýringarmynd sem getur hjálpað til með að velja rétt líkan.
Hafðu eftirfarandi í huga næst þegar þú opnar ChatGPT:
4o (sem er annað en o4) er ágætt til daglegs brúks, þ.e. fyrir einfaldar til meðalflóknar spurningar. Þetta er væntanlega mest notaða líkanið hjá flestum. Einföld fyrirspurn er t.d. „hvaða matur inniheldur mikla trefjar?“
o3 er hentar vel fyrir mikilvæg eða flókin verkefni. Þetta er rökhugsunarlíkan sem er mun sterkara en t.d. 4o.
4.5 módelið er hannað fyrir ítarlegri fyrirspurnir: Þegar þú vilt vandað og rökrétt svar án þess að þurfa að bíða of lengi þá grípur þú til 4.5. Módelið er líka öflugt við flóknari textaúrvinnslu, s.s. dæmis þýðingar, endurskrifanir eða yfirferð á textum. Samantektir eða greiningar: Þegar þú þarft ítarlegri úrvinnslu en þú færð frá 4o en ekki endilega svo mikla djúpgreiningu að þú farir í o3. Athugaðu að aðgangur að 4.5 er takmarkaður við ákveðinn fjölda fyrirspurna á viku.
Þegar ég vil kafa djúpt í tiltekið efni þá vil ég að ChatGPT taki sinn tíma, viði að sér heimildum og skili ítarlegri samantekt. Til þess nota ég Deep Research. Athugaðu að Deep Research er ekki líkan sem valið er í líkanavalinu heldur rofi í verkfærunum. Undir yfirborðinu er þetta byggt á o3, en ég tel að það sé ekki alveg sambærilegt við að spyrja o3 beint um það sama, en ég er ekki viss.
Hvað stærðfræði, kóðun og álíka rökhugsun varðar þá mælum við með o3 og o4 líkönunum, allavega þegar um er að ræða ChatGPT.
Það er líka ágætt að hafa í huga að það getur reynst gagnlegt að reyna önnur líkön. ChatGPT er ekki upphaf og endir alls. Gemini, Claude og Grok, svo fátt eitt sé nefnt, eru mjög áhugaverðar lausnir. Claude er t.a.m. mjög öflugt í kóðun. Við Hjörvar munum fjalla ítarlega um þessi ólíku líkön og hvernig þau nýtast í skólastarfi í næstu eintökum af þessu vefriti.
S.Fjalar
Á ég að borga fyrir gervigreindina?
Ókeypis gervigreindarþjónusta er frábær byrjun fyrir alla sem eru að stíga fyrstu skrefin í notkun á gervigreind:
Hún dugar vel fyrir grunnþarfir eins og hugmyndavinnu, einfalda textagerð, samantektir á styttri textum og til að kynnast þessarar tækni.
Hún hentar vel til að sjá hvort þú telur þig græða á viðkomandi þjónustu eða ekki.
Ef þú veltir fyrir þér að greiða fyrir áskrift gætirðu verið að fá:
Öflugri gervigreindarlíkön: Þetta þýðir oft nákvæmari og áreiðanlegri svör, betri textagerð, dýpri skilning á flóknum fyrirmælum og getu til að vinna úr meiri magni af upplýsingum í einu, sem getur skilað sér í betri niðurstöðum.
Aukinn hraða og meiri afköst: Minni biðtími, hærri mörk á fjölda fyrirspurna eða unnum gögnum, sem getur sparað dýrmætan tíma.
Aðgang að sérhæfðari verkfærum og nýjustu eiginleikum: Þetta getur falið í sér myndagerð, greiningu á stærri skjölum, möguleikann á að búa til sérsniðna aðstoðarbotta (eins og GPTs) og ýmislegt annað.
Þegar þú hefur kynnst ókeypis útgáfunni geturðu betur metið hvort þessir viðbótarmöguleikar myndu nýtast þér svo vel í starfi að þeir séu fjárfestingarinnar virði.
Hjörvar Ingi
Verður 2025 ár Google?
Ef ég hefði verið beðinn um að veðja á sigurvegara í gervigreindarkapphlaupinu um það leyti sem ChatGPT kom fram á sjónarsviðið þá hefði ég hiklaust valið Google. Ekki nokkur vafi! Google kom hins vegar töluvert á óvart á þessum tíma og alls ekki á jákvæðan hátt.
Google var lengi að koma sér af stað í þessu kapphlaupi, en núna virðist fyrirtækið hafa náð nokkuð góðum takti. Svo góðum reyndar, að ég er farinn að halda að 2025 verði árið þeirra á þessu sviði. Hér eru nokkrar Google lausnir sem við Hjörvar munum fjalla sérstaklega um á umræddu námskeiði og einnig í næstu póstum frá okkur.
Veo myndgervillinn
Ég er áskrifandi að Google Pro og hef þar með takmarkaðan aðgang í gegnum Gemini gervigreindina að Veo, sem er nýjasti myndgervill fyrirtækisins. Í stuttu máli sagt þá er ótrúlegt hvað þessi tækni hefur náð langt. Meðfylgjandi myndskeið var t.d. búið til með eftirfarandi textaskipum.A golden retriever standing in front of cows that are in a fence. He is trying to moo at them and and they look surprised at him. The visual style should be realistic. A sound of the cows mooing can be heard.
Auðvitað er þetta ekki fullkomið og en getið þið ímyndað ykkur hver staðan verður eftir eitt ár?
S.Fjalar
Hvað með Copilot?
Microsoft má eiga það, að fyrirtækið brást mjög snöggt við þegar gervigreindin, eins og við þekkjum hana, kom fyrst fram á sjónarsviðið. Fyrirtæki fjárfesti hraustlega í OpenAI og kynnti til sögunnar Copilot gervigreindina sem byggir á ChatGPT og er í dag er mikilvægur hluti af Microsoft 365 umhverfinu, sem framhaldsskólar landsins (langflestir allavega) eru áskrifendur að í gegnum Menntaskýið. Copilot skiptir því okkur kennara þó nokkru máli.
Copilot lofaði góðu lengi vel og ég nýtti það mikið en svo fór, að Google og aðrir leikendur á þessu sviði náðu vopnum sínum og fyrir stuttu áttaði ég mig á því, að ég hef látið Copilot svo til afskiptalaust svo mánuðum skiptir. Og það þrátt fyrir að Microsoft hafi ekki látið sitt eftir liggja hvað varðar uppfærslur og nýjungar. Þangað til ég sá nýjustu útgáfuna af Microsoft 365 umhverfinu þar sem áherslan er öll á gervigreind.
Vefskoðarinn minn og verkfærin
Ég hef komið mér upp ákveðnu verklagi og safni af verkfærum sem ég hef tiltæk við höndina hvenær sem ég þarf á þeim að halda. Kannski getur þetta gagnast þér líka.
Hver er best í íslensku?
Kennarar og auðvitað allir aðrir sem nýta sér gervigreind í íslensku málumhverfi spyrja sig oft og iðulega hvaða gervigreindarlíkan höndlar íslenskuna best. Nú er það svo að fyrirtækið Miðeind fylgist vel með og mælir frammistöðu nýjustu gervigreindarlíkana hverju sinni í íslensku og í nýlegri grein á vef fyrirtækisins kemur fram að Gemini 2.5 Pro, sem tilheyrir Google, er nýr leiðtogi hvað varðar íslenskukunnáttu gervigreindarlíkana. Það er vel þess virði að lesa póstinn frá Miðeind í heild sinni.
S.Fjalar og Hjörvar Ingi
Síðast en ekki síst
Að lokum bendum á nokkrar áhugaverðar greinar sem tengjast gervigreind og skólastarfi: